Notkunarreglurnar hér að neðan eiga við um Tenor. Reglurnar spila mikilvægt hlutverk í að viðhalda jákvæðri upplifun allra sem nota Google-vörur.

Við þurfum að halda misnotkun sem ógnar getu okkar til að veita þessar þjónustur í skefjum og biðjum því alla um að fara að eftirfarandi reglum til að hjálpa okkur að uppfylla það markmið. Ef okkur berst tilkynning um mögulegt brot á reglum kunnum við að fara yfir efnið og grípa til viðeigandi ráðstafana, þar með talið að takmarka aðgang að efninu, fjarlægja efnið og takmarka eða loka á aðgang notandans að Google-vörum.

Við kunnum að gera undantekningar á framfylgd við þessar reglur ef um er að ræða listrænt, fræðandi, heimildarlegt eða vísindalegt gildi eða ef almenningur nýtur á annan hátt góðs af því að við grípum ekki til aðgerða varðandi efnið.

Gættu þess að fara yfir reglurnar annað slagið þar sem þær kunna að breytast. Farðu einnig yfir þjónustuskilmála Google til að fá frekari upplýsingar.

Að tilkynna misnotkun

Ef þú telur að einhver brjóti gegn eftirfarandi reglum geturðu tilkynnt það til yfirferðar. Í Tenor-forritinu er það gert með því að halda efninu inni og fletta að hnappinum „Tilkynna“. Á Tenor.com er það gert með því að smella á hnappinn „Tilkynna“ við hliðina á umræddu efni.

Notkunarreglur

Reikningsstuldur

Ekki nota reikning annars notanda án leyfis viðkomandi. Ef okkur berst tilkynning um reikningsstuld kunnum við að grípa til viðeigandi ráðstafana sem geta meðal annars falið í sér að aðgangur þinn að tilteknum vörum okkar verði fjarlægður eða Google-reikningnum þínum verði lokað.

Kynferðisleg misnotkun og kynlífsþrælkun barna

Ekki búa til, hlaða upp eða dreifa efni sem felur í sér misnotkun á eða ofbeldi gegn börnum. Þetta á við um allt efni sem sýnir kynferðislega misnotkun á börnum. Smelltu á „Tilkynna misnotkun“ til að tilkynna efni í Google-vöru sem kann að fela í sér misnotkun á barni.  Hafðu beint samband við viðeigandi stofnun í þínu landi ef þú verður var/vör við slíkt efni annars staðar á netinu.

 

Google bannar alfarið notkun vara sinna í þeim tilgangi að stofna börnum í hættu. Það á meðal annars við um kynferðislega hegðun gagnvart börnum á borð við:

  • Barnatælingu (til dæmis að vingast við barn á netinu til að greiða fyrir kynferðislegum samskiptum, annaðhvort á netinu eða í raunheimum, og/eða skiptast á kynferðislegu myndefni við barnið);
  • Kynlífskúgun (til dæmis að hóta barni eða beita það fjárkúgun með því að nota raunverulegan eða meintan aðgang að viðkvæmum myndum af barninu); 
  • Kyngervingu barna undir lögaldri (til dæmis myndefni sem sýnir, hvetur til eða hampar kynferðislegri misnotkun á börnum eða að draga upp mynd af börnum á hátt sem kann að leiða til kynferðislegrar misnotkunar á börnum); og 
  • Mansal á barni (til dæmis að auglýsa eða falast eftir barni til kynferðislegrar misnotkunar í gróðaskyni).  
 

Við munum fjarlægja slíkt efni og grípa til viðeigandi ráðstafana sem kunna að fela í sér að málið sé tilkynnt til stofnunar fyrir týnd og misnotuð börn (National Center for Missing and Exploited Children), takmörkun á aðgangi að eiginleikum vara og lokun reikninga. Ef þú telur barn vera í hættu eða að það hafi þegar orðið fyrir misnotkun, misþyrmingum eða mansali skaltu umsvifalaust hafa samband við lögreglu. Ef þú hefur þegar tilkynnt málið til lögreglu og þarft á frekari aðstoð að halda eða hefur áhyggjur af því að barni sé eða hafi verið stofnað í hættu í vörum okkar geturðu tilkynnt athæfið til Google.

Sniðganga

Ekki taka þátt í aðgerðum sem ætlað er að sneiða hjá reglum okkar eða hagræða takmörkunum sem reikningurinn þinn var beittur. Þetta á meðal annars við um að stofna eða nota marga reikninga eða beita öðrum aðferðum sem ætlað er að taka þátt í athæfi sem tekið var fyrir.

Hættulegt og ólöglegt athæfi  

Hvorki nota þessa vöru til að taka þátt í ólöglegu athæfi né til að koma athæfi, vörum, þjónustu eða upplýsingum á framfæri sem valda fólki eða dýrum alvarlegum og bráðum skaða. Þrátt fyrir að leyfa almennar upplýsingar um efni í fræðandi, heimildarlegum, vísindalegum eða listrænum tilgangi drögum við línuna þar sem efni stuðlar á beinan hátt að skaða eða hvetur til ólöglegs athæfis. Ef okkur berst tilkynning um ólöglegt athæfi munum við grípa til viðeigandi ráðstafana sem kunna að fela í sér að málið sé tilkynnt til viðeigandi yfirvalda.

Áreitni, einelti og hótanir  

Ekki áreita, hóta eða leggja aðra í einelti. Þar að auki leyfum við ekki notkun vörunnar í því skyni að taka þátt í eða hvetja aðra til þátttöku í slíku athæfi. Þetta á meðal annars við um að beita útvalinn einstakling skaðlegri misnotkun, hóta að valda einhverjum skaða, kyngera einhvern á óumbeðinn hátt, afhjúpa persónuupplýsingar um einhvern sem hægt er að nota til að hóta viðkomandi, niðurlægja eða gera lítið úr þolendum ofbeldis, úr harmleik annarra eða að áreita þolendur með öðrum hætti og hvetja aðra til þátttöku í slíku athæfi. Hafðu í huga að áreitni á netinu er ólögleg á mörgum stöðum og getur haft í för með sér alvarlegar og raunverulegar afleiðingar, bæði fyrir geranda og þolanda. Ef okkur berst tilkynning um hótanir um skaða eða aðrar hættulegar aðstæður munum grípa til viðeigandi ráðstafana sem kunna að fela í sér að málið sé tilkynnt til viðeigandi yfirvalda.

Hatursorðræða    

Ekki taka þátt í hatursorðræðu. Hatursorðræða er efni sem stuðlar að eða hampar ofbeldi, mismunun, lítillækkun eða er fyrst og fremst ætlað að kynda undir hatri gegn einstaklingum eða hópum á grundvelli kynþáttar, uppruna, trúarbragða, fötlunar, aldurs, þjóðernis, stöðu í herþjónustu, kynhneigðar, kyns, kynvitundar eða annarra einkenna sem tengjast kerfisbundinni mismunun eða jaðarsetningu.  

Að villa á sér heimildir og villandi framsetning á auðkenni  

Ekki þykjast vera annar einstaklingur eða fyrirtæki eða koma fram undir röngum formerkjum.  Þetta á meðal annars við um að þykjast vera einstaklingur eða fyrirtæki sem þú ert ekki fulltrúi fyrir; að gefa upp villandi upplýsingar um auðkenni notanda/vefsvæðis, hæfni, eignarhald, tilgang, vörur, þjónustu eða starfsemi; eða að gefa í skyn ósönn tengsl við eða meðmæli frá öðrum einstaklingi eða fyrirtæki. 

 

Þetta á einnig við um efni eða reikninga þar sem eignarhald er ekki gefið rétt upp eða því haldið leyndu eða ef aðaltilgangur þess/þeirra er að veita villandi upplýsingar um eða leyna upprunalandi þínu eða öðrum upplýsingum um þig af ásettu ráði þegar þú birtir notendum í öðrum löndum efni sem tengist stjórnmálum, samfélagslegum málefnum eða málefnum sem varða almenning. Við leyfum skopstælingar, háðsádeilur og notkun dulnefna eða höfundarnafna. Forðastu þó að birta efni sem líklegt er komi í veg fyrir að lesendur geti borið rétt kennsl á þig.

Óviðkomandi efni

Ekki dreifa efni sem er umfjöllunarefninu óviðkomandi eða snýr ekki að efninu eða umfjöllunarefninu sem um ræðir.

Spilliforrit og skaðlegt efni af svipuðum toga

Ekki dreifa spilliforritum eða öðru efni sem skaðar eða truflar starfsemi netkerfa, netþjóna, tækja notenda eða annarra tæknilegra innviða. Þetta á meðal annars við um beina hýsingu, innfellingu eða dreifingu spilliforrita, veira, skaðlegs kóða eða annars skaðlegs eða óæskilegs hugbúnaðar eða efnis af svipuðum toga. Þetta á einnig við um efni sem dreifir veirum, opnar sprettiglugga, reynir að setja upp hugbúnað án samþykkis notanda eða hefur á annan hátt áhrif á notendur með skaðlegum kóða. Skoðaðu reglur okkar um örugga vefskoðun til að kynna þér málið.

Villandi efni

Ekki dreifa efni sem blekkir, villir um fyrir eða ruglar notendur. Þetta á meðal annars við um:

 

Villandi efni tengt borgaralegum og lýðræðislegum ferlum: efni sem hægt er að sýna fram á að sé falskt og gæti dregið verulega úr þátttöku í eða trausti til borgaralegra og lýðræðislegra ferla. Þetta á meðal annars við um upplýsingar um opinber kosningaferli, gjaldgengi frambjóðenda á grundvelli aldurs eða fæðingarstaðar, niðurstöður kosninga eða manntal sem stangast á við opinberar skrár stjórnvalda. Þetta á einnig við um rangar fullyrðingar um að stjórnmálamaður eða opinber starfsmaður hafi látist, lent í slysi eða þjáist af bráðum og alvarlegum veikindum.

 

Villandi efni tengt skaðlegum samsæriskenningum: efni sem heldur á lofti eða ýtir undir trúverðugleika skoðana þess efnis að gjörðir tiltekinna einstaklinga eða hópa séu markvisst til þess gerðar að valda víðtækum skaða. Þetta efni stangast á við áreiðanleg sönnunargögn og hefur leitt til eða hvetur til ofbeldis.

 

Villandi efni tengt skaðlegum ráðleggingum hvað varðar heilsu: villandi heilbrigðistengt- eða læknisfræðilegt efni sem hvetur fólk til að taka þátt í athöfnum sem kunna að leiða til alvarlegs líkamlegs eða andlegs skaða eða hafa alvarleg neikvæð áhrif á lýðheilsu.

 

Falskt efni: efni sem hefur verið breytt með tækni eða sem átt hefur verið við þannig að það villi um fyrir notendum og geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

 

Villandi efni kann að vera leyft í fræðandi, heimildalegu, vísindalegu eða listrænu samhengi en gættu þess að veita fólki fullnægjandi upplýsingar svo að það geti áttað sig á samhenginu. Í einhverjum tilfellum er efni af slíkum toga að við tökum ekki tillit til samhengis þess og munum fjarlægja það af verkvöngum okkar.

Einkalífsmyndir án samþykkis viðkomandi 

Hvorki geyma né dreifa myndum eða vídeóum sem sýna nekt, eru kynferðislegs eðlis eða innihalda viðkvæmt efni án samþykkis þess sem birtist á myndinni/í vídeóinu. Ef einhver hefur sent mynd eða vídeó af þér sem sýnir nekt, er kynferðislegs eðlis eða inniheldur viðkvæmt efni skaltu tilkynna okkur það hér.

Persónu- og trúnaðarupplýsingar

Hvorki geyma né dreifa persónu- eða trúnaðarupplýsingum annarra í leyfisleysi. ​Þetta á meðal annars við um notkun viðkvæmra upplýsinga, svo sem kennitölur, reikningsnúmer, kreditkortanúmer, myndir af undirskriftum og heilsufarsskrár. Í flestum tilfellum þar sem þessar upplýsingar eru aðgengilegar annars staðar á netinu eða í opinberum skrám, til dæmis kennitölur sem skráðar eru á opinberu vefsvæði, beitum við almennt ekki refsiaðgerðum.

Vefveiðar

Ekki nota þessa vöru til vefveiða. Það á meðal annars við um að falast eftir eða safna viðkvæmum upplýsingum á borð við aðgangsorð, fjárhagsupplýsingar og kennitölur.

Eftirlitsskyldar vörur og þjónusta   

​Ekki selja, auglýsa eða greiða fyrir sölu á eftirlitsskyldum vörum og þjónustu. Eftirlitsskyldar vörur og þjónusta eru meðal annars áfengi, fjárhættuspil, lyf, ósamþykkt fæðubótarefni, tóbak, flugeldar, vopn eða heilbrigðis/-lækningatæki.

Kynferðislegt efni

Hvorki geyma né dreifa efni af kynferðislegum toga, svo sem efni sem sýnir nekt, grófar kynlífsathafnir og klám, né efni sem hefur kynferðislegar vísanir, svo sem efni sem sýnir nekt að hluta til eða vísar á annan hátt í kynferðislegar athafnir. Þetta á meðal annars við um að beina umferð á klámsíður. Við leyfum efni í fræðandi, heimildarlegum, vísindalegum eða listrænum tilgangi.

Ruslefni

Ekki dreifa ruslefni. Það kunna meðal annars að vera óumbeðið kynningar- eða markaðsefni, óumbeðið efni sem búið er til af sjálfvirku forriti, óumbeðið efni sem birtist ítrekað, óskiljanlegt efni eða hvað sem er sem virðist vera fjöldasending.

Truflun og misnotkun á kerfi

Ekki misnota þessa vöru eða skaða, hamla eða hafa neikvæð áhrif á starfsemi netkerfa, tækja eða annarra tæknilegra innviða. Þetta á meðal annars við um að hamla, slökkva á eða eiga við einhvern hluta vörunnar og þjónustu hennar með neikvæðum afleiðingum.

Tæknileg skilyrði

Tenor leggur sig fram við að veita notendum hnökralausa upplifun í hæsta gæðaflokki þegar þeir skoða og deila efni á verkvangi okkar. Tenor hefur lagt fram eftirfarandi reglur um tæknileg skilyrði til að viðhalda samræmi, samhæfi og heilleika vörumerkisins.

Lengd efnis: Færslur sem eru birtar á verkvangi Tenor mega að hámarki vera 14 sekúndur að lengd. Það stuðlar að sem þægilegustu áhorfi notenda og dregur úr tímanum sem það tekur að hlaða efni.

Studd snið: Aðeins er leyfilegt að hlaða upp samhæfum skráarsniðum á Tenor, svo sem GIF, WebP, PNG, MP4 og JPEG. Skrám sem innihalda ekki efni eða eru á óstuddu sniði verður hafnað. Efni má þar að auki ekki fara umfram stærðarmörk eða hámarksstærð skráa.

Óheimilar myndir af börnum undir lögaldri

Hvorki geyma né dreifa myndum af börnum undir lögaldri án ótvíræðs samþykkis foreldris, forsjáraðila eða lagalegs fulltrúa barnsins. Ef þú verður var/vör við að einhver geymi eða dreifi mynd af barni undir lögaldri án tilskilins samþykkis skaltu tilkynna okkur það hér

Ofbeldi og blóðsúthellingar  

Hvorki geyma né dreifa efni sem sýnir tilefnislaust ofbeldi eða blóðsúthellingar á raunverulegu fólki eða dýrum sem er fyrst og fremst ætlað að valda uppnámi. Þetta á meðal annars við um mjög gróft efni, svo sem aflimun eða nærmyndir af afskræmdum líkum og gróft efni, svo sem efni sem sýnir verulegt magn blóðs. Efni kann að vera leyft í fræðandi, heimildalegu, vísindalegu eða listrænu samhengi en gættu þess að veita fólki fullnægjandi upplýsingar svo að það geti áttað sig á samhenginu. Í einhverjum tilfellum er efni svo ofbeldisfullt eða átakanlegt að við tökum ekki tillit til samhengis þess og munum fjarlægja það af verkvöngum okkar. Að lokum skaltu ekki hvetja aðra til að fremja ofbeldisverk.

Samtök og hreyfingar sem hvetja til ofbeldis 

Samtökum og hreyfingum sem þekkt eru fyrir að hvetja til ofbeldis er ekki heimilt að nota þessa vöru í neinum tilgangi. Ekki dreifa efni sem greiðir fyrir eða hvetur til aðgerða slíkra hópa, svo sem nýliðunar, skipulagningar aðgerða á netinu eða í raunheimum, deilingar handbóka eða annars efnis sem gæti leitt til skaða, kynningar á hugmyndafræði ofbeldissamtaka sem ekki tengjast ríkinu, hvatningar til hryðjuverka, hvatningar til ofbeldisverka eða að hampa árásum samtaka sem aðskilja sig frá ríkinu. Við kunnum einnig að grípa til aðgerða gegn notandanum sjálfum en það veltur á efninu sem um ræðir. Efni tengt ofbeldissamtökum sem ekki tengjast ríkinu kann að vera leyft í fræðandi, heimildalegu, vísindalegu eða listrænu samhengi en gættu þess að veita fólki fullnægjandi upplýsingar svo að það geti áttað sig á samhenginu.